Landspítali hlaðvarp

Landspítali hlaðvarp

Viðtöl um ýmis málefni sem tengjast heilbrigðismálum, starfsemi og mannauði Landspítala

 1. Thumb 1591118366 artwork

  Erla Dögg Ragnarsdóttir og Steinunn Erla Thorlacius: Stjórnendur fjarheilbrigðisþjónustu og röntgendeildar segja frá fjölbreyttum verkefnum í Covid-19

  Starfsemi Landspítala tók stökkbreytingum í Covid-19-faraldrinum. Erla Dögg Ragnarsdóttir er deildarstjóri á göngudeild 10-E á Landspítala og Steinunn Erla Thorlacius er deildarstjóri röntgendeildar.

  10-E sér um göngudeildarþjónustu við skjólstæðinga sem tilheyra sérgreinum kviðarhols- og brjóstaskurðlækninga, brjóstholsskurðlækninga, nýrna- og meltingarlækninga og ígræðslu- og verkjateyma. Þegar hægðist um verkefni 10-E vegna faraldursins flutti Erla Dögg sig yfir til Covid-19-göngudeildar Landspítala og stýrði þar hjúkrunarhluta síma- og fjarheilbrigðisþjónustu við sjúklinga.

  Í verkahring röntgendeildar Steinunnar Erlu eru myndgreiningarrannsóknir og rannsóknarinngrip svo sem röntgenrannsóknir, tölvusneiðmyndir, segulómun, ísótópar, jáeindaskanni og ómskoðanir. Röntgendeild gegndi lykilhlutverki í að sinna Covid-sjúklingum í faraldrinum og þurfti að aðlagast hratt breyttum aðstæðum, öðruvísi vaktaálagi og nýjum kröfum um færanleika á tækjabúnaðar.

  Erla Dögg og Steinunn Erla segja hér frá viðamiklum verkefnum sínum í faraldrinum, ásamt því að gefa okkur innsýn í bakgrunn sinn, en báðar urðu stjórnendur bráðungar og hafa ólíkar áherslur. Önnur er hjúkrunarfræðingur að upplagi meðan hin er geislafræðingur með sér brennandi áhuga á markaðsmálum. Gestastjórnandi er Jón Magnús Jóhannesson sérnámslæknir.

  Stjórnandi Hlaðvarps Landspítala er Stefán Hrafn Hagalín, en upptöku annast Ásvaldur Kristjánsson. Báðir starfa hjá samskiptadeild Landspítala, sem dælir þessar vikurnar út djúpum og löngum hlaðvörpum sem tengjast Covid-19. Verkefnið snýst um að tala við lykilfólk spítalans í faraldrinum á mismunandi sviðum og skrásetja frásagnir þess fyrir spjöld sögunnar í ítarlegu máli til gagns og lærdóms þegar fram í sækir.

  Hlaðvarp Landspítala er aðgengilegt á vef spítalans og helstu samfélagsmiðlum, en einnig í streymisveitunum Spotify og Apple iTunes, ásamt hlaðvarpsveitum á borð við Simplecast, Pocket Casts og Podcast Addict.

 2. Thumb 1590762000 artwork

  Ragnar Freyr Ingvarsson yfirlæknir og Sólveig Hólmfríður Sverrisdóttir deildarstjóri: Covid-19-göngudeild Landspítala - Uppsetning og verkefni

  Sérstök Covid-19-göngudeild Landspítala og þjónustan þar, ásamt öflugri fjarheilbrigðisþjónustu, gegndi lykilhlutverki í vel heppnuðum undirbúningi og viðbragði hér á landi gagnvart Covid-19-faraldrinum. Deildin er raunar talin einstæð á heimsvísu og þótti halda utan um krefjandi sjúklingahóp með afar farsælum hætti, en hún hefur nú lokið störfum. Yfirlæknir göngudeildarinnar var Ragnar Freyr Ingvarsson og deildarstjóri Sólveig Hólmfríður Sverrisdóttir. Hér er rætt við Ragnar Frey og Sólveigu, sem segja frá verkefnum sínum á göngudeildinni, ásamt því að gefa okkur innsýn í bakgrunn sinn. Gestastjórnandi er Jón Magnús Jóhannesson sérnámslæknir.

 3. Thumb 1589396423 artwork

  Brautryðjendur í hjúkrun: Anna Gyða Gunnlaugsdóttir

  Vika hjúkrunar er haldin árlega á Landspítala kringum 12. maí, fæðingardag Florence Nightingale (1820) og alþjóðlegan dag hjúkrunarfræðinga. Að þessu sinni er vikan haldin 11.-15. maí. Í tilefni af Viku hjúkrunar ræsum við hérna hlaðvarpssyrpuna "Brautryðjendur í hjúkrun" og fyrsti viðmælandinn er Anna Gyða Gunnlaugsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmyndari sem á ótrúlega fjölbreyttan feril að baki í mörgum löndum (Íslandi, Bandaríkjunum, Bretlandi, Noregi, Svíþjóð, Grænlandi og Eþíópíu), en hún hefur meðal annars sérhæft sig í verkjameðferð. Gestastjórnendur eru hjúkrunarfræðingarnir Marta Jónsdóttir formaður hjúkrunarráðs Landspítala og Dagrún Ása Ólafsdóttir aðstoðardeildarstjóri bæklunarskurðdeildar B5.

 4. Thumb 1589807083 artwork

  Brautryðjendur í hjúkrun: Sigríður Gunnarsdóttir

  Vika hjúkrunar er haldin árlega á Landspítala kringum 12. maí, fæðingardag Florence Nightingale (1820) og alþjóðlegan dag hjúkrunarfræðinga. Að þessu sinni var hún haldin 11.-15. maí. Í tilefni af Viku hjúkrunar ræstum við hlaðvarpssyrpuna "Brautryðjendur í hjúkrun" og annar viðmælandinn þar er Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala. Gestastjórnandi er hjúkrunarfræðingurinn Marta Jónsdóttir, sem er formaður hjúkrunarráðs Landspítala. Sigríður segir í hlaðvarpinu frá sjálfri sér, starfsferlinum og verkefnum sínum í dag.

 5. Thumb 1588936369 artwork

  Ólafur Guðlaugsson yfirlæknir sýkingavarnadeildar: Undirbúningur og starfsemi Landspítala í COVID-19-faraldrinum

  Ólafur Guðlaugsson hefur verið yfirlæknir sýkingavarnadeildar Landspítala frá árinu 2003 og samhliða gegnt stöðu við smitsjúkdómadeild spítalans. Deildirnar spiluðu ótvíræða lykilrullu í undirbúningi, viðbrögðum og starfsemi spítalans í COVID-19-faraldrinum. Ólafur sérmenntaði sig vestanhafs í því fagi og krækti sér þá að auki í meistaragráðu í lýðheilsufræðum. Hann er gestur Hlaðvarps Landspítala að þessu sinni, en gestastjórnandi er Jón Magnús Jóhannesson sérnámslæknir.

 6. Thumb 1588777726 artwork

  Ásdís Elfarsdóttir Jelle, deildarstjóri og hjúkrunarfræðingur: Starfsemi sýkingavarnadeildar Landspítala á tímum COVID-19

  Hjúkrunarfræðingurinn Ásdís Elfarsdóttir Jelle er deildarstjóri sýkingavarnadeildar Landspítala, sem hefur gegnt algjöru lykilhlutverki í undirbúningi og starfsemi spítalans í COVID-19-faraldrinum. Ádís er gestur Hlaðvarps Landspítala að þessu sinni, en gestastjórnandi er Jón Magnús Jóhannesson sérnámslæknir. Hún hefur unnið innan heilbrigðiskerfisins frá árinu 1980 og sinnt þar fjölbreyttum störfum. Sýkingavarnadeild tilheyrir sviði framkvæmdastjóra hjúkrunar og lækninga.

  Stjórnandi Hlaðvarps Landspítala er Stefán Hrafn Hagalín, en upptöku annast Ásvaldur Kristjánsson. Báðir starfa hjá samskiptadeild Landspítala. Landspítali dælir þessar vikurnar út djúpum og löngum hlaðvörpum sem tengjast COVID-19. Verkefnið snýst um að tala við lykilfólk spítalans í faraldrinum á mismunandi sviðum og skrásetja frásagnir þess fyrir spjöld sögunnar í ítarlegu máli til gagns og lærdóms þegar fram í sækir.

 7. Thumb 1588278985 artwork

  Freyja Valsdóttir lífeindafræðingur og Máney Sveinsdóttir náttúrufræðingur: Starfsemi sýkla- og veirufræðideildar Landspítala á tímum COVID-19

  Freyja Valsdóttir lífeindafræðingur og Máney Sveinsdóttir náttúrufræðingur eru gestir Hlaðvarps Landspítala að þessu sinni, en gestastjórnandi er Jón Magnús Jóhannesson sérnámslæknir. Freyja og Máney starfa báðar á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Mikið hefur mætt á veirufræðihluta deildarinnar í COVID-19 faraldrinum og vinnudagarnir lengst með margföldu álagi við greiningar á sýnum vegna COVID-19. Starfsfólki var fjölgað í faraldrinum og mönnun við greiningarvinnu styrkt, ásamt því sem tækjabúnaður var bættur. Freyja og Máney segja okkur hér frá vinnunni á deildinni í faraldrinum, ásamt því að greina frá bakgrunni sínum og starfsferli.

 8. Thumb 1587734979 artwork

  Berglind Guðrún Chu, sérfræðingur í smitsjúkdómahjúkrun: Hjúkrun og verkefni hjúkrunarfræðinga á smitsjúkdómadeild á tímum COVID-19

  Berglind Guðrún Chu er sérfræðingur í hjúkrun sjúklinga með smitsjúkdóma. Hún veitir hér hlustendum Hlaðvarps Landspítala innsýn í starfsemi A7 smitsjúkdómadeildar á tímum COVID-19. Það er Jón Magnús Jóhannesson sérnámslæknir sem ræðir við Berglindi, ásamt Stefáni Hrafni Hagalín, deildarstjóra samskiptadeildar. Farið er yfir helstu ráðstafnir og verkefni smitsjúkdómadeildar og vöngum velt yfir hjúkrun á þessum viðsjárverðu tímum.

  Upptöku annaðist Ásvaldur Kristjánsson hjá samskiptadeild Landspítala. Hlaðvarp Landspítala er aðgengilegt á vef spítalans og helstu samfélagsmiðlum, en einnig í streymisveitunum Spotify og Apple iTunes, ásamt hlaðvarpsveitunum Simplecast og Podcast Addict.

 9. Thumb 1587521460 artwork

  Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar: COVID-19 faraldurinn og víðtæk áhrif hans á starfsemi Landspítala

  Már Kristjánsson er yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala og hefur gegnt lykilhlutverki í undirbúningi, vibrögðum og starfsemi Landspítala kringum COVID19-faraldurinn. Hér ræðir Jón Magnús Jóhannesson sérnámslæknir við Má, ásamt Stefáni Hrafni Hagalín, deildarstjóra samskiptadeildar. Tæpt er á bakgrunni beggja læknanna, en áherslan er þó á Má sem á einstaklega fjölbreyttan og farsælan feril að baki, bæði sem læknir og stjórnandi í faginu. Már hugsar með sérstöku þakklæti til mikilvægra mótunarára á Fáskrúðsfirði þar sem hann starfaði um tveggja ára skeið sem nýútskrifaður læknir. Farið er yfir helstu ráðstafnir og verkefni á Landspítala vegna faraldursins og vöngum velt yfir einkennum veirunnar, lyfjaþróun og samfélagslegum áhrifum.

  Upptöku annaðist Ásvaldur Kristjánsson hjá samskiptadeild Landspítala. Hlaðvarp Landspítala er aðgengilegt á vef spítalans og helstu samfélagsmiðlum, en einnig í streymisveitunum Spotify og Apple iTunes, ásamt hlaðvarpsveitunum Simplecast og Podcast Addict.

 10. Thumb 1575978777 artwork

  Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands: Bakgrunnurinn, baráttan, þjóðmálin og áhyggjurnar af Arsenal

  Sjúkraliðar gegna lykilhlutverki í heilbrigðisþjónustunni. Á Landspítala starfa yfir 600 sjúkraliðar, en á landinu öllu eru um 4.000 manns með sjúkraliðamenntun og þar af eru 2.100 manns starfandi sem slíkir. Sjúkraliðar eru næststærsta heilbrigðisstétt landsins og starfa á öllum heilbrigðisstofnunum; sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum, forvarnar- og endurhæfingarstofnunum, lækna- og rannsóknarstofum og í heimahjúkrun. Viðmælandi okkar að þessu sinni er Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands. Sandra hefur forvitnilegan bakgrunn, en hún sat á Alþingi um skeið, er heitur aðdáandi knattspyrnuliðsins Arsenal, Hafnfirðingur að uppruna og sótti sér mannsefni norður yfir heiðar.

View Older Episodes